21.10.2008 | 23:11
Flughálka á heiðinni.
Samkvæmt vef vegagerðarinnar er flughálka á Fjarðarheiði í dag. Í þessum ham er heiðin aðeins ætluð vel búnum bílum og hún er ekki þjónustuð nema til 20.00 á kvöldin.
Seyðfirðingar, sem langar í leikhús eða tónleika á Héraðið eða í öðrum nágrannabæjum, þurfa nefnilega að spá í veðrið. Kemst ég heim í kveld?
Héraðsbúar og Norðfirðingar sem setja sig nær aldrei úr lagi að mæta í bío eða aðrar kvöldskemmtanir á Seyðisfirði geta sömuleiðis ekki reitt sig á komast heim að "power sýningunni" lokinni.
Reyndar er einn og einn stuðbolti frá nágrannabæjunum sem finnst afar gott að hafa svona fína afsökun til að sitja í glöðum hópi fram á kveld og fá bara gistingu hjá góðum vini hér.
En góðir hálsar! Heiðin er komin í vetrarhaminn og nú þurfa allir að skella snjódekkjum undir bílinn sinn, ef þeir ætla á heiðina á næstunni.
Það er bara svoleiðis.
Samgöngur | Breytt 22.10.2008 kl. 00:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.10.2008 | 23:24
Öryggisupplýsingar á Fjarðarheiði.
Ákveðið hefur verið að taka saman öryggisatriði fyrir vegfarendur á Fjarðarheiði og birta hér.
Upplýsingar um færð á Fjarðarheiði má fá á eftirtöldum stöðum: Síma 1777. Á vefsíðunni http://www.vegagerdin.is, og á síðu 483 á textavarpinu.
Æskilegur búnaður bifreiðar og ökumanns: Í vetrarfærð á Fjarðarheiði er best að nota grófmunstruð vetrardekk. Gott er að hafa skóflu og dráttartóg til taks í bílnum. Hlífðarföt ökumanns: Gott er að hafa til taks kuldasamfesting, hlýja skó, húfu og vettlinga í bílnum. Að minnsta kosti fyrir ökumann. Öryggisvesti eru góður búnaður til að sjást betur í slæmu skyggni, einnig er gott að velja kuldagalla með endurskinsröndum.
Nú er GSM símasamband alls staðar á Fjarðarheiði og dettur síminn aðeins út neðst í heiðinn Seyðisfjarðarmegin nálægt Fjarðarseli. Neyðarnúmer sem best er að hringja í er 112 og gefa þeir samband áfram við viðkomandi aðila, í neyðartilvikum. Mælt er með að ef maður festir sig í erfiðri færð að þú kveikir viðvörunarljós og haldir kyrru fyrir í bílnum meðan beðið er eftir aðstoð.
Hvenær ruðningur hefst að morgni og hvenær honum er hætt að kvöldi. Hér verða settar frekari upplýsingar. Samkvæmt óstaðfestum upplýsingum er þjónustutíminn á heiðinni frá klukkan 7 að morgni til kl. 21.00 að kveldi.
Upplýsingar um rútuna. Ferðaþjónustan er með áætlunarferðir alla veika daga, sem eru öruggur samgöngumátti fyrir þá sem hafa ekki aðgang að vel búnum bílum í illviðri og misjafnri færð á veturna. Á virkum dögum fer rútan frá Herðubreið kl 7.55 og leggur af stað til baka frá Egilsstaðaflugvelli kl 9.00. Síðdegis á virkum dögum fer hún frá Herðubreið kl. 16.10 og til baka frá flugvellinum fer hún kl. 16.50. Á laugardögum fer hún frá Seyðisfirði k. 9.40 og til baka frá Egilsstöðum kl 10.30. Ath. þetta er vetraráætlun.
Þessar upplýsingar verða uppfærðar enn frekar ef þörf þykir. Endilega setjið inn athugasemdir.
Samgöngur | Breytt 29.10.2008 kl. 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.10.2008 | 23:09
Fréttir af Fjarðarheiði.
Jón Halldór Guðmundsson skrifar:
Ég átti leið um Fjarðarheiði í dag, sunnudaginn 19. október.
Ég fór af stað til Egilsstaða klukkan 18.35. Samkvæmt upplýsingum vegagerðarinnar var þetta staðan: Hálkublettir, norðaustan 11 m/s.
Það var smá snjór á heiðinni í Efri staf, en uppi á há heiðinni var mjög lítill snjór og nánst engin hálka. Um leið og hallaði niður að norðanverðu herti vindinn og mátti heita snjóþekja niður mest allt norðurfjallið. Á nýja kaflanum safnast töluverður snjór og virðist hann hannaður til að mynda þæfing. Með öðrum vegarkaflinn er snjógildra. Ég er enn á sumardekkjum og þurfti því að læðast yfir. Allt gekk vel, en ég þykist vita að það verði orðið þungfært í nótt. Þó var færðin og spáin þannig að ég tók enga áhættu á að stoppa lengi á Héraði og hraðaði mér aftur yfir strax og erindi mínu var lokið.
18.10.2008 | 00:45
Þagnarmúrinn rofinn!
Komið þið sæl.
Ég fagna því að kominn kominn er hópur sem tilbúinn er að rjúfa þagnarmúrinn um hættur Fjarðarheiðinnar. Að mínu mati er það ein af ástæðunum fyrir því að við erum ekki komin lengra í baráttunni um bættar samgöngur þ.e.s. við höfum allt of lengi haldið því á lofti að það sé allt í lagi með Fjarðarheiði. Ég veit ekki hvers vegna. En ég veit að aðrir sem fengið hafa úrbætur á sínum Samgöngum s.b. Héðinsfjarðarg, Vaðlaheiðarg, Bolungarvíkurg, Norðfjarðarg, Og það má nefna fleiri göng hafa fengið þessar úrbætur inn á vegaáætlun vegna þess að yfirvöldum hefur m.a. verið komið í skilning um að þessar leiðir séu stórhættulegar.
Ég vona svo sannarlega að allar fréttir af ófærð, slysum, óhöppum og öllum dögum sem Fjarðarheiði er lokuð yfir nótt rati í fjölmiðla eða inn á nýju heimasíðunna. Og takið eftir, Fjarðarheiði telst ekki lokuð ef hún er opinn frá kl.7:00 að morgni til kl. 21:00 að kveldi samkvæmt skilgreiningum vegagerðarinnar.
Ég styð að sjálfsögðu þetta framtak og vona að þetta verði til þess að Samgöng verði að veruleika.
Baráttukveðjur
Gulla
12.10.2008 | 14:52
Um þessa síðu.
Undirbúningshópur vinnur nú að því að hefja reglulegar gönguferðir um Fjarðarheiði.
Ætlunin er að hvetja sem flesta Seyðfirðinga til að vera með, og vekja þannig athygli á erfiðum samgöngum við Seyðisfjörð og stuðla að samstöðu bæjarbúa og hollri hreyfingu um leið.
Eina samgönguleið Seyðisfjarðar á landi liggur um Fjarðarheiði og er hún oft erfið, ótrygg og jafnvel stórhættuleg.
Í fögru veðri er þetta afar fögur og tilkomumikil leið, en illviðri, hálka og dimm þoka gera hana oft stórhættulega yfirferðar.
Þess vegna er heiðin okkar flagð undir fögru skinni.