11.1.2011 | 14:33
Svaðilför í svaka fínu færi!
Fjarðarheiði er sögð vera vel fær samkvæmt heimasíðu Vegagerðarinnar í dag.
Vörubílsstjóri sem var að koma yfir heiðina sem er að ferja vörubíl til útflutnings með ferjunni sagði farir sínar ekki sléttar af för sinni um Fjarðarheiði.
Er hann var að silast upp efri brekkurnar í Norðurfjallinu á litlum hraða kemur á móti honum jeppabifreið sem rann í hálku framan á bílinn og skemmdi framhorn farþega megin. En hlið jeppans er all skemmd.
Ekki var raunum mannsins lokið með þessu. Á heiðinni var mikið kóf svo hann sá ekki mann sem stóð við bíl sinn og var að hreinsa framrúðuna og taldi litlu hafa munað að hann hefði keyrt yfir manninn.
Í dag kom ferjan Norröna með 6 bíla og nokkra farþega sem nú bíða tækifæris að komast yfir heiðina. Heiðin er sögð vera vel fær öllum bílum, en er það auðvitað ekki, því ekki eru allir bílar sem koma erlendis frá vel búnir á negldum hjólbörðum og ökumennirnir flestir alls óvanir svona erfiðum aðstæðum sem eru á Fjarðarheiði.
Heiðin er fljúgandi hál undir snjólagi og skafrenningur og ofankoma.
Skráð af Árna Elíssyni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.