Vetrarfærð um Fjarðarheiði

Síðustu daga hefur veðurfar verið úrkomusamt og kalt á Austurlandi.  Hefur einatt verið hálka og skafrenningur á Fjarðarheiði og heiðin ófær frá kvöldi og fram á morgun.

Nú er ólöglegt að hafa nagladekk undir bílum sínum og ákvæði um sektir í fullu gildi fyrir Seyðfirðinga sem aðra landsmenn.  Hins vegar er það svo að ekkert vit er að vera á sumardekkjum ef maður þarf eða vill eiga þess kost að reyna að komast yfir Fjarðaheiði í þessari færð.  Þess vegna má segja að svona samgöngur séu ólöglegar í sjálfu sér.

Í dag er þæfingsfærð og snjókoma á Fjarðarheiði og svona hefur þetta verið ansi marga daga í ár.

Þetta ástand þýðir það að margir sem veigra sér við að keyra í slæmu skyggni og illfærð eru í raun hálf einangraðir hér í okkar annars svo ágæta bæjarfélagi.

Um síðustu helgi var hér haldið 1000 manna blakmót.  Mótið fór fram á Héraði og Seyðisfirði.  Þá kynntust margir aðkomumenn heiðinni eins og hún er oft.  Lentu ýmsir í kröppum dansi í hálku og slabbi, en ég held að engin alvarleg slys hafi orðið.


Ófærð- páskahret

Í gær var nokkuð blint að fara yfir Heiðina og lentu einhverjir í vandræðum.  Björgunarsveitin var kölluð út þess að aðstoða bíla á Heiðinni.  Þá segir mbl frá því að árekstur hafi verið á  Fjarðarheiði þegar tveir bílar skullu saman í snjógöngum þannig að ekki sáust handaskil. Í fréttinni segir að um hafi verið að ræða jeppa og fólksbifreið.  Engin slys urðu á fólki. 

 I dag er veðrið orðið fínt og góð færð yfir.

 

Ólafía Þ. Stefánsdóttir setti inn


Göng- um, göng-um

Hópur fólks á öllum aldri gekk yfir Fjarðarheiðina í gær laugardag í blíðskaparveðri.  Tilgangurinn með göngunni er að vekja athygli á samgöngum til Seyðisfjarðar.   Flestir gengu heiðina á 4 og hálfum tíma, þeir sem sprækastir voru gengu á mun skemmri tíma.  Næst gengur hópurinn í júlí og eru allir velkomnir að slást í för.

 

Ólafía Þ. Stefánsdóttir setti inn

Gönguhópurinn


Útkall á Fjarðarheiði

Nú í þessum skrifuðum orðum er björgunarsveitin Ísólfur að sækja  menn af erlendu bergi brotna sem voru fastir á fjarðarheiði og hafa líklega ekið framhjá skilti vegagerðarinnar án þess að skilja upp né niður í   Ófært eða Óveður þýðir rétt eins og við skiljum ekki hvað "Доброе утро" þýðir á rússnesku.Smile

 

Helgi Haraldsson
Björgunarsveitin Ísólfur


Enn og aftur ófært um Fjarðarheiði

Í dag er ófært um Fjarðarheiði enn og aftur og kannski ekki af ástæðulausu.  Snjógöng eru næstum alla leið og gæti ég trúað að þau væru á bilinu 2-4 metrar þar sem þau eru hæst, snjórinn laus og ekki þarf mikinn vind til að skyggni sé horfið, þetta er ekki mönnum bjóðandi.

Og svona til gamans þá erum við þrjú úr björgunarsveitinni sem bíðum átekta með heiðina því við ættum að vera á fundi á Breiðdalsvík klukkan 1, einnig veit ég að Einar Bragi bíður líka eftir að heiðin verði fær til að geta spilað á Egilstöðum klukkan 2.

Þið sem ráðið í landinu!!!!!!!

Hvar eru Jarðgöngin????????
Þarf banaslys á Fjarðarheiði til að þið farið að hugsa????????????
Hver ætlar þá að axla ábyrgð og fara í felur???????????

Ég spyr.

Helgi Haraldsson


Árekstur á Fjarðarheiði.

Árekstur verð í dag á Fjarðarheiði í slæmu skyggni á heiðinni.

Samkvæmt fregnum af málinu voru ekki meiðsli á fólki, sem betur fer.

Bílarnir eru hins vegar talsvert skemmdir og að minnsta kosti annar trúlega ónýtur. 

Ritari: Jón Halldór Guðmundsson.


Ófært og Óveður á Fjarðarheiði

Um klukkan 09:00 í morgun var Björgunarsveitin Ísólfur kölluð út til aðstoðar fólksbifreiðar sem sat föst skammt frá miðhúsaá á norðurbrún Fjarðarheiðar.  Eins og yfirleitt er gert var haft samband við Björgunarsveitina Hérað og hún fengin til að koma upp á móti okkur í Ísólfi.  Þegar við vorum að nálgast staðinn fengum við þá tilkynningu að fólksbifreiðin hefði verið losuð og fylgt til byggða af snjóruðningstæki.

Þegar hér var komið var skyggni sökum veðurhæðar orðið slíkt að ganga varð á undan bílnum og lentum við í því í tvígang að þurfa að halda kyrru fyrir í klukkutíma í senn og var þá ákveðið að halda áfram til Egilstaða heldur en að snúa við og lenda þá jafnvel í enn meira brasi, meðan á þessu gekk höfðu héraðsmenn lent útaf sökum skyggnisleysis og fikruðu sig eftir raflínunni niður að vegi.  Loks um klukkan 13 lægði vind aðeins þannig að hægt var fyrir okkur að halda för áfram og vorum við komnir til Egilstaða um klukkan 13:30 og höfðum við þá verðið á heiðinni í um fjóra og hálfan tíma.

Við héldum kyrru fyrir á Egilsstöðum og lögðum af stað til baka um klukkan 15:30 og fylgdum þá snjóruðningstækinu yfir og stjórnuðum umferð svo bílar væru ekki alveg ofaní tækinu meðan rutt var, þegar hér var komið var vindur dottinn niður í 15m/sek úr um 27m/sek og sóttist ferðin mjög vel og voru þessar myndir teknar á heimleiðinni.

 Helgi Haraldsson
Björgunarsveitin Ísólfur

110320091581103200915911032009157


Heiðin enn einu sinni ófær

Í dag er Fjarðarheiðin ófær, enn einn daginn.   Ég fór af stað á mínum Subaru rétt um 7,20 í morgun.  Veðrið var í lagi hér niðri og alla leið að neðri staf.  Þar er mikill skafrenningur og fyllti strax í göngin.  Ég mætti einum jeppa sem greinilega hafði snúið við, hann var skynsamari en ég.  Ég hélt minni för áfram í von um að það væri í lagi með allt.  Ég hringdi í Vegagerðina áður en ég lagði af stað því það var sögð snjóþekja á netinu.  Konan sem ég talaði við hafði þær upplýsingar að vel væri fært öllum vetrarbúnum bílum.  Þegar ég er komin langleiðina í kofa sé ég engar stikur, allt hvítt og blint.  Ég keyri út í ruðning og hélt að ég væri kolföst og reyndi að bakka og fara áfram.  Stakk mér síðan út til að kanna aðstæður og sá að ég var bara klaufi, og hélt áfram að baksa í þessu þangað til bílinn var laus.  Ég var svo komin í Egilsstaði 8,15 og því næstum búin að vera eina klukkustund á leiðinni.  Það var mjög blint og ekkert ferðaveður en ég gat bara hvergi snúið við.  Ég kom svo heim aftur í langri bílalest.  Það eru orðin ansi mikil göng og verður færð fljót að spillast ef hreyfir vind. 

Þessi vetur er að verða okkur ansi erfiður og man ég ekki eftir svona mörgum óveðursköflum þau tíu ár sem ég hef þurft að fara Heiðina til vinnu minnar.  

Þetta bara gengur ekki lengur við verðum að fara að komast á vegaáætlun með GÖNG!!!!

Ólafía Stefánsdóttir
Seyðisfirði


Aftanákeyrsla á Fjarðarheiði

Á staðnumAftanákeyrsla varð á Fjarðarheiði um klukkan 16:00 Í dag sökum slæms skyggnis og ófærðar enginn slasaðist sem betur fer og var bíllinn fjarlægður af heiðinni strax þar sem töluverð hætta þótti skapast af honum við þessar veðuraðstæður.

         Björgunarsveitin Ísólfur fór á staðinn  til að tryggja öryggi og aðstoða eiganda annars bílsins sem var óökuhæfur eftir atvikið slæmt veður var á staðunum um og yfir 20 metrar á sekúndu í hviðum og 10-15 metra skyggni. Þegar þessi færsla er skrifuð er búið að merkja Fjarðarheiðina Ófæra sem hefði mátt vera fyrr.

 

Helgi Haraldsson
Björgunarsveitini Ísólfi


Útkall á Fjarðarheiði

Í gærkveldi laust fyrir klukkan 23 fór björgunarsveitin Ísólfur í útkall á Fjarðarheiði til að aðstoða bíl sem sat þar fastur.  Talsverð ofankoma var á heiðinni skyggni 25-50 metrar og vindur um og yfir 20m.sek.  Allt gekk vel og var aðgerð lokið klukkutíma síðar og allir komnir til byggða. 

        Beðið var um að heiðin yrði merkt lokuð þar sem að ekkert ferðaveður né færi var á heiðinni en það gekk því miður ekki eftir.

Helgi Haraldsson
Björgunarsveitinni Ísólfi


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband